Kirkjur


Fjölmargir njóta þess að heimsækja kirkjur á ferðalögum sínum. Sumir ferðast milli þeirra og safna myndum af kirkjum á landinu. Því miður eru ekki allar kirkjur opnar lengur þannig að óvíst er hvort hægt er að setjast inn og njóta helgileikans.

Mjög góðar upplýsingar um allar kirkjur landsins er að finna á heimasíðunni www.kirkjukort.net. Þar má til dæmis sjá myndir af kirkjum, fá ítarupplýsingar og sjá staðsetningu á korti.

Á Vesturlandi eru mjög margar fallegar kirkjur bæði stórar og smáar sem gaman er að heimsækja eða mynda. Hér á eftir fer listi yfir kirkjur skipt eftir svæðum.


Hvalfjörður og Akranes

Lítil kirkja er að Saurbæ rétt áður er keyrt er að Hvalfjarðargöngunum sunnan megin.
Í Vindáshlíð er gamla kirkjan sem var í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.  Hún var flutt þaðan í Vindáshlíð í Kjós um haustið 1957. Reynisvallakirkja í Kjós er skammt frá Vindáhlíð við veg númer 48.

Hallgrímskirkja að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd (vegnúmer 47) er virðuleg kirkja sem íslenska þjóðin lét reisa og var vígð árið 1957 í minningu sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar.

Kirkjur eru að Leirá (vegnúmer 504) og að Innra Hólmi (vegnúmer 51) en sú kirkja var reist árið 1891 og altarisstaflan er eftir Kjarval.

Akraneskirkja er lítil snotur kirkja í neðri hluta bæjarins, hún var vígð í ágúst 1896 þegar íbúar staðarins voru milli 600 og 700 hundruð. Í dag eru bæjarbúar rúmlega 6.500.


Borgarfjöður

Borgarneskirkja sómir sér vel á fallegri hæð í miðjum bænum. Á Borg á Mýrum þar sem Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson bjó, er kirkja sem var reist 1880. Altaristafla kirkjunnar er eftir enska  málarann W.G. Collingwood sem hann málaði eftir Íslandsferð sína 1897.

Kirkjan á Hvanneyri er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni og var hún vígð 1905. Altaristaflan er mjög sérstök, sýnir Krist í íslensku landslagi.

Lítil kirkja frá 1897 er að Fitjum innst í Skorradal (vegnúmer 508) og að Lundi í Lundareykjardal (vegnúmer52) er steinsteypt kirkja með háum turni yfir forkirkju. Kirkjan var vígð 1963. Kirkjan að Bæ (vegnúmer 513) er teiknuð af Halldóri Jónssyni og var vígð 1967.

Kirkja hefur verið í Reykholti frá öndverðri kristni. Gamla kirkjan í Reykholti var reist árið 1887 notkun árið 1996. Ný kirkja, teiknuð af Garðari Halldórssyni, var reist í Reykholti á árunum 1988-1996 og vígð á Ólafsmessu á sumar 1996. Kirkjan hefur afar fagran hljómburð og er eftirsótt til tónlistariðkunar. Kirkjan er prýdd steindum gluggum  eftir Valgerði Bergsdóttur.

Lítil sérstæð kirkja er að Húsafelli og er hún í einkaeign Húsfellinga. Í kirkjunni eru listmunir eftir Pál Guðmundsson listamann frá Húsafelli.

Kirkjur eru að Stóraási nálægt Hraunfossum (vegnúmer 50) og að Gilsbakka (vegnúmer 518).
Skammt frá er kirkjan að Síðumúla (vegnúmer 523) sem var reist árið 1926.  Altaristaflan þar sýnir Krist og börn í íslensku landslagi.

Kirkjan að Norðtungu (vegnúmer 522) er úr steinsteypu reist árið 1953. Næstu kirkjur eru að Hjarðarholti (vegnúmer 522) þar sem kirkjan er frá 1896 og Stafholtskirkja (vegnúmer 526) en altaristaflan þar er eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Kirkjan var byggð á árunum 1875 – 1877.

Í Norðurárdal við þjóðveg númer 1 skammt norðan við  Bifröst er kirkja að Hvammi.


Snæfellsnes og Mýrar

Á Mýrunum eru tvær kirkjur niður við sjó. Kirkjan að Álftanesi (vegnúmer 534) er upprunalega frá 1904 en endurbyggð 1988. Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson, eftirmynd töflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan að Ökrum (vegnúmer 540) er frá 1900 en endurbyggð 1983-1988. Kirkjan er teiknuð að Guðmundi Jakobssyni sem teiknaði einnig Fríkirkjuna í Reykjavík.

Kirkja er einnig að Áltártungu (vegnúmer 54), Staðarhrauni (vegnúmer 539) og Kolbeinsstöðum (vegnúmer 54) sem er steinsteypt kirkja vígð 1934.

Kirkjan á Ytri – Rauðamel (til hliðar við vegnúmer 54) skammt frá Gerðubergi er snotur lítil kirkja. Einnig skammt frá vegi númer 54 eru Miklaholtskirkja og örlítið vestar er kirkjan að Fáskrúðarbakka sem er frá 1936.

Staðastaður (vegnúmer 54) á sér merka sögu, þar er talið að Ari fróði hafi búið og minnisvarði um hann eftir Ragnar Kjartansson stendur skammt frá kirkjunni. Staðastaður er talin vera sögusviðið bak við bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli. Núverandi kirkja er steinsteypt reist á árunum 1942- 1945.

Búðakirkja er sérlega falleg lítil timburkirkja sem sómir sér vel í fallegri náttúru að Búðum.

Hellnar (út frá vegi númer 574)  var um aldir ein af stærstu verstöðvum á Snæfellsnesi en fyrst var vígð þar kirkja 1883 en núverandi kirkja var reist á árunum 1943 – 1945.

Á Ingjaldshóli (vegnúmer 574)  á norðanverður Snæfellsnesi hefur staðið kirkja frá 1317. Núverandi kirkja var reist 1903 og er hún elsta steinsteypta kirkja á landinu.

Kirkjan í Ólafsvík var vígð 1967 og er mjög sérstök, talað er um að  hún minni á útflattan saltfisk. Steindir gluggar er í kirkjunni efir Gerði Helgadóttir listakonu. Lítil kirkja er að Brimilsvöllum (vegnúmer 54) skammt austan við Ólafsvík.

Kirkjan í Grundarfirði var vígð ári áður en kirkjan í Ólafsvík. Í kirkjunni er glermynd eftir Eirík Smith sem sýnir Jesúm blessa börnin.

Lítil timburkirkja frá 1882 er að Setbergi (vegnúmer 576) og merkileg timburkirkja frá 1857 er að Bjarnarhöfn (vegnúmer 577) . Hún er heimiliskapella staðarins því aðrir bæir eiga ekki sókn til hennar. Undir Helgafelli skammt frá Stykkishólmi er kirkja frá 1903. Guðrún Ósvífursdóttir bjóð að Helgafelli og árið 1184 var klaustur Ágústínusarreglu flutt frá Flatey að Helgafelli.

Í Stykkishólmi eru tvær kirkjur. Lítil timburkirkja frá 1879 er nálægt höfninni en ný  kirkja var tekin í notkun árið 1990.  Kirkjubyggingin er mjög sérstæð og stendur á fallegum stað upp á hæð og útsýni frá kirkjunni er mjög fagurt. Altaristafla er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttir.

Á Skógarströnd (vegnúmer 54) eru kirkjur eru að Narfeyri, lítil timburkirkja frá 1889,  og að Breiðabólsstað. Kirkjan á Breiðabólsstað brann til kaldra kola árið 1971 og þá var ný kirkja reist og var vígð 1973.


Dalir

Að Snóksdal (vegnúmer 582) er timburkirkja frá 1874 með litlum turni og sönglofti. Sérkennilegt er að predikunarstóllinn er uppi á altarinu.

Kirkjur eru að Kvennabrekku (vegnúmer 60) sem er frá 1924 og að Stóra-Vatnshorni (vegnúmer 586) nálægt Eiríksstöðum. Þar hafa kirkjur staðið frá fornu fari en núverandi kirkja, sem er timburkirkja á steinsteyptum gruni var vígð 1971.

Hjarðarholt (vegnúmer 587) er staður sem kemur mikið við sögu í Laxdælu, þar fæddist aðalsöguhetjan Kjartan Ólafsson. Núverandi kirkja að Hjarðarholti var byggð 1904 og var Rögnvaldur Ólafsson húsameistari byggingarinnar.

Hvammur í Dölum (til hliðar við vegnúmer 590) var eitt mesta höfðingjasetur Dalasýslu til forna þar bjóð Auður djúpúðga Ketilsdóttir. Hvamms-Sturla Þórðarson ættfaðir Sturlunga bjó þar einnig og þar fæddist Snorri Sturluson. Timburkirkja er að Hvammi frá 1884 en hefur verið mikið endurbætt.

Á Staðarfelli (vegnúmer 590) hefur frá árinu 1980 verið rekið meðferðarheimili á vegum SÁÁ fyrir sjúklinga sem koma í endurhæfingu eftir dvöl á Vogi. Litli timburkirkja er á staðnum frá 1891.

Lítil kirkja frá 1934 er að Dagverðarnesi (til hliðar við vegnúmer 590). Kirkjan var byggð úr við eldri kirkju frá 1848. Húsafriðunarnefnd samþykkti árið 2009 að Dagverðarneskirkja skuli sett á skrá nefndarinnar yfir friðuð hús.

Skarðskirkja á Skarðsströnd (vegnúmer 590) var smíðuð á árunum 1914 – 1915 upp ú´r eldri kirkju sem fokið hafði af grunni. Mikil saga er tengd staðnum og er meðal annars Skarðsbók, skinnbók sem á er skrifuð Jónsbók (Lögbók Íslendinga frá 1281) ásamt öðru skyldu efni.

Staðarhólskirkja (vegnúmer 590) er bændakirkja reist árið 1899 en í febrúar 1981 fauk hún af grunninum og skemmdist. Kirkjan ver endurbyggð í  upprunalegri mynd og tekin aftur í notkun haustið 1982.

Kirkja í Flatey á Breiðafirði er afar sérstök þar sem loftið er myndskreytt eftir listamanninn Baltasar. Kirkjan er steinsteypt og var reist árið 1926.